Ö.Í. hélt námskeið fyrir bifhjólakennara

mars 18, 2013, 4:34 eftirmiðdegi


Ökukennarafélag Íslands stóð fyrir námskeiði fyrir bifhjólakennara til undirbúnings á breyttum kennsluháttum vegna breytinga á reglum um bifhjólapróf. Bifhjólanefnd félagsins hefur starfað í rúmt ár við undirbúning á upptöku þessara reglna og í nánu samstarfi við Kjartan Þórðarson hjá Umferðarstofu. Bifhjólanefndina skipa Sigurður Jónasar, Njáll Gunnlaugsson, Björgvin Guðnason og Þórður Bogason, þeir hafa verið sér og félaginu til sóma í störfum sínum, og unnið samfélaginu þarft verk, að ég best fæ séð. Nefndin hefur kynnt sér þessi mál erlendis og kynnt okkur félögum í ÖÍ það á félagsfundi og svo með þessu námskeiði, sem einnig telur sem eftirmenntun fyrir ökukennara. Þó tvísýnt sé með veður til bifhjólaaksturs á þessum árstíma og það liti vissulega illa út með það um tíma, þá slapp það eins og best mátti búast við, svalt 1 til 2 gráðu frost en bjart og stillt veður.



Við fyrstu sýn á skyggnum í kennslustofunni virtist sem brautin væri nokkuð flókin en ég hygg að eftir að við fórum að aka hana hafi flestir séð að svo er ekki. Nokkur gagnrýni kom fram í umræðum að það þyrfti mikið pláss fyrir brautina, rými sem oft væri torfundið. Telja má þó líklegt að það leysist. Nemendur æfðu verklega allar þrautir og einnig hvernig skoða skal bifhjól og ekki vafi á að þetta var nauðsynlegt að gera.



Þáttakendur voru víða að af landinu og einnig voru þarna prófdómarar frá Frumherja meðal þáttakenda en það er auðvitað mikilvægt að gagnkvæmur skilningur ríki á milli prófdómara og kennara og Umferðarstofu. Farið var yfir refsistigakvarðan og ekki varð vart við óánægju kennara með hann enda bifhjólanefndin búin að liggja yfir honum með Kjartani og því voru engir augljósir hnökrar á honum. Í umræðum um stigagjöfina komu þó fram nokkur áhugaverð sjónarmið t.d. með val á akreinum vegna umferðar í hliðargötum frá hægri. Kjartan benti á að akstur á vinstri akrein væri ekki alltaf tilefni til refsistiga, prófdómarar hefðu heimild til að meta hvort umferðaraðstæður réttlættu það.



Nokkrar umræður spunnust um bifhjólapróf að vetri en í rauninni kom engin afgerandi niðurstaða um það enda þetta ekki vettvangur til ákvarðana um það. En að mínu viti væri ástæða til að skoða það mál gaumgæfilega með tilliti til öryggis. Ef óhöpp henda í bifhjólaprófum sem rekja má til vetrarfæris þá gæti það orðið ökukennslu og prófunaraðila til mikils álithnekkis og boðið heim neikvæðri umræðu. Þar sem undafarin ár hafa einkennst af mildri veðráttu a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu, þá er hugsanlega ekki ástæða til að binda þetta naglatímabilinu, en stoppa bifhjólapróf t.d. des, jan og febrúar, jafnvel mars. Þetta er nú bara sett hér fram til umhugsunar frekar en tillögur.



Fyrir mig sem nemanda á námskeiðinu og stjórnarmanns í félaginu er mikil ánægja með störf nefndarinnar og leyfi ég mér fyrir hönd stjórnar að þakka þeim og öllum sem lögðu nefndini lið kærlega fyrir. Það var líka ánægjulegt að sjá hve margir lögðu á sig langan veg að vestan, austan og norðan til að mæta á þetta námskeið, hafi þeir þökk og heiður fyrir.



Svavar Svavarsson ökukennari