maí 26, 2018, 6:36 eftirmiðdegi
Í tilefni þess að í dag, 26. maí, eru 50 ár liðin frá því að hægri umferð var tekin upp hér á Íslandi langar stjórn Ökukennarafélags Íslands að minnast tímamótanna.
Ökukennarafélag Íslands kom að þessari breytingu með afgerandi hætti.
Félagið var stofnað árið 1946 en félagsstarfið var mjög stopult á fyrstu árum þess og var í raun endurvakið árið 1959 af nokkrum aðilum.
Árin liðu og árið 1965 þjappaðist ákveðinn hópur ökukennara saman þegar farið var í námsferð til Þýskalands og í framhaldi af því keyptu margir sér tilbúna kennslubíla frá Volkswagen.
Árið 1967, þegar undirbúningur fyrir hægri umferð stóð sem hæst, fór hópur héðan til Svíþjóðar í náms- og kynnisferð en Svíarnir voru þá nýlega búnir að skipta yfir í hægri umferð.
Félagsmenn Ökukennarafélags Íslands þjálfuðu upp hópa sem leiðbeindu síðan öðrum ökumönnum við þessa miklu breytingu í umferðarmálum.
Árið 1967 stofnaði Ö.Í. ökuskóla og var hann staðsettur í Suðurveri í Stigahlíð.
Um það leyti jók félagið útgáfu að ýmiskonar fræðsluefni og hefur í gegnum árin verið leiðandi í útgáfu fræðsluefnis fyrir ökunám til allra ökuréttinda.
Er það mat margra félagsmanna að við H daginn 1968 hafi orðið nútímavæðing í umferðarmálum og mikil lyftistöng fyrir ökukennara og greinina í heild sinni.
Einnig má fullyrða að breytingin skilað betri ökumönnum og var jákvæð fyrir umferðarsamfélagið.
Ökukennarafélag Íslands þakkar þjóðinni fyrir þessa vegferð og óskar öllum velfarnaðar í umferðinni.
Innskráning