Fréttir & tilkynningar

16. mars 2020

Vegna COVID-19


Þar sem allir eru að spá í hvað við ökukennarar eigum að gera á þessum COVID-19 tímum þá viljum við benda á:


Varðandi kennslu útí bíl þá eru hlutirnir ekki nægjanlega á hreinu. Við mælum með að ökukennarar kynni sér fyrirmæli stjórnvalda um samkomubann


Hvað getum við gert?



  • Almennt hreinlæti, handþvottur, þrif á bíl á milli nemenda og fatnaði, sprittun.

  • Ath. að hreinsa þarf alla snertifleti s.s. stýri, gírstöng, stefnuljósarofa, handföng, spegil, sætisstillingar o.fl o.fl.

  • Að biðja nema að þvo sér um hendurnar fyrir og eftir ökutímann.

  • Að vera í hönskum eykur vörn, einnig að bjóða nemum einnota hanska og að spritta sig.

  • Við getum beðið ökunema um að koma ekki í tíma ef grunur leikur á smithættu, einkenni kvefs eða flensu. Einnig ef þeir hafa verið í samneyti við fólk sem hefur verið í sóttkví, einangrun eða greinst sýkt af COVID-19.

  • Við getum reynt að draga úr kennslu, skera niður nemendafjölda á degi hverjum og reynt þannig að dreifa álaginu og minnka smithættu.

  • Við viljum benda ökukennurum á að það minnkar hættu á smiti að vera ekki með fleiri aðila í bílnum en ökunemann, ekki taka með vini og ekki láta nemendur sækja og skutla hvor öðrum.

  • Gefa okkur tíma til að hreinsa bílana á milli nemenda.


Athuga þarf að sum efni s.s. spritt geta skemmt innréttingu s.s. leður.
Viðbragðsaðilar nota Oxivir til sótthreinsunar leðurinnréttinga í bílum.


Það er öllum í sjálfsvald sett hvort þeir halda áfram kennslu eða taka hlé. Við viljum benda þeim ökukennurum sem eru komnir á efri ár og/eða eru haldnir undirliggjandi sjúkdómum að huga sérstaklega vel að sér.


 


7. febrúar 2020

Ný umferðarlög


Í nýjum umferðalögum 2019/77 er tóku gildi 1. janúar sl. er skýrt tekið fram að óheimilt sé að hefja kennsluakstur fyrr en nemandi er búin að sækja um ökuskírteini og fá námsheimild. 


Fyrir bílprófið (B-flokk) má gefa út námsheimild 12 mánuðum fyrir 17 ára afmælið. Það er því hægt að sækja um ökuskírteini á 16 ára afmælisdaginn.


Umferðalög 2019/77


67. gr. Kennsluakstur.



  • Kennsluakstur á bifreið má því aðeins fara fram að hjá nemanda sitji ökukennari sem uppfyllir ákvæði 64. gr. sem þá telst stjórnandi bifreiðarinnar. Nemandi telst þó stjórnandi við prófakstur. Nú óskar maður sem hefur ökuskírteini eftir að æfa sig í akstri á ný í viðurkenndri kennslubifreið hjá ökukennara, og telst þá ökukennari stjórnandi bifreiðarinnar. Ákvæði 48.–50. og 52. gr. eiga þó ávallt einnig við um nemandann.

  • Ökukennari ber ábyrgð á að kennsluakstur fari fram á þeim stöðum og þannig að ekki stafi hætta af. Hann skal og gæta þess að eigi stafi óþörf eða veruleg truflun af kennsluakstrinum.

  • Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um kennsluakstur á sérstökum lokuðum svæðum, m.a. ökugerðum. Má þar ákveða að kennsluakstur fari fram án þess að ökukennari sitji hjá nemanda.

  • Kennsluakstur má ekki fara fram fyrr en að fenginni námsheimild lögreglustjóra. Skal nemandi þá fullnægja skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. og má ekki vera svo ástatt um hann að 7. mgr. 58. gr. eigi við. Sá sem sviptur hefur verið ökurétti má eigi hefja akstursþjálfun fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út. Slík akstursþjálfun má því aðeins fara fram að hjá nemanda sitji ökukennari, sbr. 1. mgr.

  • Gefa má út námsheimild áður en aldursskilyrðum skv. 58. gr. er fullnægt fyrir:
    a. B-flokk 12 mánuðum fyrr,
    b. AM-, A1-, A2-, A-, BE- og T-flokk þremur mánuðum fyrr,
    c. C-, C1-, D- og D1-flokk sex mánuðum fyrr, enda hafi umsækjandi fullnaðarskírteini fyrir B-flokk.

18. desember 2019

Útskrift ökukennara


Þann 6. desember síðastliðinn voru 27 nýir ökukennarar útskrifaðir frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þetta er annar hópurinn sem útskrifast úr ökukennaranámi til almennra ökuréttinda frá Endurmenntun HÍ. Námið er þriggja missera nám til 30 ECTS eininga.


utskrift2


Ökukennarafélag Íslands óskar nýjum ökukennurum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í starfi.


 

25. október 2019

Skemmti- og kynnisferð Ö.Í.


Skemmtiferð Ökukennarafélags Íslands var farin nú í lok september og tóku 25 ökukennarar og þeirra makar þátt. Flogið var til München fimmtudaginn 19. september en ekið var í gegnum fjögur lönd í ferðinni. Byrjað var á að aka til Austurríkis og gist í litlum bæ við Bodensee sem heitir Bregenz.
Daginn eftir var ekið í gegnum Sviss og Alpana til Mílanó og þar var byrjað á að skoða Alfa Romeo safnið.


alfa


Á laugardeginum var ökuskóli í Mílanó heimsóttur og var mjög áhugavert að kynnast því hvernig ökunám fer fram á Ítalíu. Eftir það var frjáls dagur í Mílanó. Á sunnudeginum var ekið til Þýskalands og Arnarhreiður Hitlers skoðað. Var það mikil upplifun fyrir ferðalanga og allir á einu máli um það hve stórfenglegur þessi staður er.
Á mánudeginum var ekið til München, margir nýttu tækifærið og fóru á Októberfest eða skoðuðu sig um í borginni. Komið var heim á þriðjudegi. 


arnarhreidur

17. september 2019

Lokað föstudaginn 20.september


i logo new


Skrifstofa Ökukennarafélagsins verður lokuð föstudaginn 20.september vegna haustferðar Ö.Í.

23. júlí 2019

Sumarlokun


Sumarlokun


Skrifstofa Ökukennarafélags Íslands verður lokuð frá 29.júlí - 9.ágúst.


Við opnum því aftur Mánudaginn 12.ágúst.


Hægt verður þó að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

18. maí 2019

Heimsóknir um landið


 


Í febrúar fór Stjórn Ökukennarafélags Íslands í ferð um Vesturland og heimsótti ökukennara í Borgarfirði. 


Nóg er að gera hjá ökukennurunum, en um 120-150 próftakar á ári eru á svæðinu og þurfa þeir að fara til Akraness til að taka ökuprófið. Nefndu þeir að aðstæður væru góðar til að stunda ökukennslu í fyrstu ökutímunum, en síðan væri einnig farið til Akraness og á höfuðborgarsvæðið til að fara í meira krefjandi ökutíma.


 


IMG 0474


Í apríl fór svo hluti stjórnar Ökukennarafélags Íslands í ferð til Akureyrar til að hitta ökukennara á Norðurlandi. Þar mynduðust áhugaverðar umræður um markmið og starfsemi félagsins og skemmtilegt var að heyra skoðanir félagsmanna á Norðurlandi. 


Félagsmennirnir voru sammála um að Ö.Í. ætti rétt á sér sem fagfélag allra ökukennara á Íslandi. Fram kom sú hugmynd að ökukennarar á Norðurlandi myndu stofna einhverskonar hóp með stuðningi Ö.Í. með það að markmiði að hittast og skiptast á skoðunum.


Þessar tvær heimsóknir voru mjög ánægjulegar og er það ætlun stjórnar að heimsækja fleiri landshluta á næstunni. 


fullsizeoutput 1c8a


fullsizeoutput 1c8c


 

14. maí 2019

Ársþing og endurmenntunarnámskeið


 


Þann 26. & 27. apríl síðastliðinn bauð Ökukennarafélag Íslands félögum sínum á endurmenntunarnámskeið sem haldið var af Endurmenntun Háskóla Íslands. Námskeiðið var Ökunám, ökupróf og ökuskírteini þar sem farið var yfir reglugerð um ökuskírteini, námskrá fyrir almenn ökuréttindi, ökupróf, reglur, ferli og framkvæmd. Kennarar námskeiðsins voru þeir Holger Torp frá Samgöngustofu og Elvar Örn Erlingsson ökukennari.


Í lok dags 26. apríl bauð Brimborg ökukennurum að koma í heimsókn og skoða hentuga kennslubíla sem þeir bjóða uppá.


Screenshot 2019 05 18 at 12.44.40


Að loknu endurmenntunarnámskeiði 27.apríl hélt Ökukennarafélag Íslands ársþing sitt á Grand Hótel í Reykjavík. Félagsmenn mættu vel á þingið og ber það vott um að ökukennarar vilja eiga gott fagfélag fyrir sína stétt. Dagskrá var með hefðbundnum hætti


Formaður félagsins kynnti 25 nýja félaga í ÖÍ og bauð þau velkomin. Um er að ræða kraftmikinn hóp fólks sem styrkja mun stéttina.


Screenshot 2019 05 18 at 13.04.26


Stjórn Ö.Í. ákvað að veita félagsmönnum sem náð hafa 70 ára aldri og hafa starfað í stjórn heiðursmerki félagsins.


Þeir sem hlutu heiðursmerki Ö.Í. í þetta sinn voru:  Arnaldur Árnason, Grímur Bjarndal Jónsson, Pálmi B. Aðalsteinsson, Snorri Bjarnason, Stefán A. Magnússon, Þráinn Elíasson og Örnólfur Sveinsson.


fullsizeoutput 1d43


Holger Torp og Kjartan Þórðason láta brátt af störfum hjá Samgöngustofu. Af því tilefni veitti Ö.Í. þeim gullmerki félagsins fyrir áratuga gott samstarf.


IMG 0486 

30. apríl 2019

Lokað föstudaginn 3.maí


i logo new


Skrifstofa Ökukennarafélagsins verður lokuð nk. föstudag, 3.maí 2019.

12. nóvember 2018

Náms- og skemmtiferð félagsmanna


 


Ökukennarafélag Íslands stóð fyrir náms- og skemmtiferð til Þýskalands og var gist í Heidelberg. Var ferðin á félagslegum grunni og líkt og fyrri ferðir á vegum félagsins hugsuð til þess að styrkja tengslin.


Ökukennararnir fóru á námskeið á sérhönnuðu æfingasvæði við Hockenheimring. Tveir þjálfarar sáu um námskeiðið og miðuðu æfingarnar að því að auka öryggi, opna á vitund og hugafar ökukennara. Aðstaðan til æfinganna er til fyrirmyndar og mikil og almenn ánægja var með námskeiðið.



Ökukennararnir heimsóttu ökuskóla í bænum Hockenheim. Skólastjórinn tók á móti hópnum ásamt stjórnarmanni í þýska ökukennarafélaginu og kynntu þeir ökunám í Þýskalandi. Mjög áhugavert var að kynnast hvernig ökunám fer fram í Þýskalandi. Meðal annars kom fram að ökukennarar eru ánægðir með starfsumhverfi sitt og ásókn er í ökukennaranám. Í Þýskalandi búa um 81 milljón manna og þrjár skólastofnanir bjóða uppá ökukennaranám. Það tekur þá 150 ökukennara sem útskrifast á hverju ári um eitt ár að ljúka námi.